Kynningarfundur 26. október 2013. Nýir félagar gengu í klúbbinn árið 2014
Kynningarfundur 26. október 2013. Nýir félagar gengu í klúbbinn árið 2014

 

AÐ VERÐA FÉLAGI

Kynningarfundur laugardaginn 24. feb. 2018

Zontaklúbbur Akureyrar hélt kynningarfund í Zontahúsinu, Aðalstræti 54 á Akureyri, laugardaginn 24. febrúar 2018 sem hófst kl. 11:30 og stóð til 13:15. Boðið var upp á súpu og brauð og á eftir kaffi og eplaköku.
Það var valnefnd klúbbsins ásamt stjórn sem hélt fundinn. Starf klúbbsins og Zontahreyfingarinnar var kynnt og sýnt hvernig unnið er að bættum hag kvenna jafnt heima sem um víða veröld. Zontakonur mynda tengslanet og starfið innan hreyfingarinnar styrkir félagana.
Fundurinn tókst vel og  það er gaman að segja frá Zontahreyfingunni.

 


Ef þig langar til að verða félagi í Zontaklúbbi Akureyrar og taka þátt í starfi Zontahreyfingarinnar við að bæta hag kvenna um heim allan þá er best að hafa samband við klúbbinn. Það er valnefnd sem sinnir mannauðsstjórnun og tekur fagnandi þeim sem sýna þessu starfi áhuga en hvaða félagi sem er getur komið upplýsingum um áhugasama til nefndarinnar. Klúbburinn er sífellt að leita að nýjum félögum í stað þeirra sem hætta. Til að kynna starfið og Zontahreyfinguna hefur valnefnd ásamt stjórn klúbbsins stöku sinnum haldið kynningarfundi þar sem boðið er upp á léttan hádegisverð og kynningu á laugardagsmorgni kl. 11-13 í Zontahúsinu. Síðasti fundur var haldinn þann 18. mars 2017 og hófst kl. 11:30. Áhugasömum er í framhaldinu boðið á klúbbfundi til að sjá hvernig starfið gengur fyrir sig. Þar sem þetta er starfsgreinaklúbbur þá eru félagar flokkaðir eftir starfsgreinum. Ef stjórn klúbbsins samþykkir að bjóða nýjum félaga í klúbbinn þá er klúbbfélögum kynnt sú ákvörðun og síðan er nýja félaganum boðið að ganga í klúbbinn. Hann getur þá þegið boðið og verið tekinn í klúbbinn eða afþakkað. Við inngöngu er greitt inntökugjald sem er 15 USD nú um 1.850 kr. auk árgjalds sem er 17.000 kr.  en eftir að starfsárið er hálfnað, í desemberbyrjun er greitt hálft árgjald. Fyrir félaga undir þrítugu veitir Alþjóða Zontahreyfingin (Zonta International) helmingsafslátt af sínum hluta árgjaldsins (USD 40 í stað 80). Á heimasíðu Zontahreyfingarinnar www.zonta.org er upplýsingabæklingur þar sem starfið er kynnt. Upplýsingabæklingur ZI á ensku er hér.

Ef félagar þurfa að hætta í klúbbnum er það tiltölulega einfalt. Þeir þurfa að vera skuldlausir við klúbbinn og tilkynna formanni skriflega að þeir hyggist hætta. Best er að hætta í lok starfsárs, þann 31. maí en tilkynna það í apríl áður en árgjald næsta árs er greitt.

Valnefnd 

Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir – gge@aey.is
Klara S. Sigurðardóttir
Kristín Sóley Björnsdóttir
Guðrún María Kristinsdóttir
Árún K. Sigurðardóttir

Zontaklúbbur Akureyrar er hátt á sjötugsaldri, stofnaður 1949, en starfar af krafti. Aldursdreifingin er víð og nokkuð jöfn og er elsti félaginn fæddur árið 1943 en sá yngsti árið 1985. Í klúbbnum eru fjórir félagar sem hættir eru í launuðu starfi sökum aldurs.